top of page
mygrandmother.jpg

Amma biður að heilsa

Fredrik Backman

Amma biður að heilsa er ein af mínum uppáhaldsbókum. Hún fjallar um hina 7 ára Elsu og ömmu hennar sem er 77 ára. Elsa er mjög ólík öðrum sjö ára börnum. Hún er mjög þroskuð og klár stelpa sem m.a. elskar Harry Potter og gengur með Gryffindor trefil hvert sem hún fer.

Elsa býr með ófrískri mömmu sinni og stjúppabba. Hún kvíðir því að verða stóra systir og óttast að mamma hennar muni ekki elska hana eins mikið. Stærsti kvíði Elsu er samt sá að hún er lögð í einelti í skólanum og á enga vini, nema ömmu sína. Flestir myndu segja að amma Elsu væri klikkuð en eftir því sem að líður á bókina komumst við að því að hún er miklu meira heldur en reykjandi gömul kona sem hefur kastað kúk í lögguna. Hún er besti (og eini) vinur Elsu og tekur hana til ævintýraheimsins Næstum-því-vakandi-lands þar sem Elsa fær að vera hugrakkur riddari sem þarf ekki að hafa áhyggjur af vinum eða foreldrum og getur verið hún sjálf. Heimurinn verður alltaf flóknari og flóknari fyrir lesanda bókarinnar en hann er samt svo skemmtilegur og fyndinn.

Eftir að líf Elsu tekur stakkaskiptum neyðist hún til að vera hugrakki riddarinn í raunveruleikanum. Fólkið sem býr í sama fjölbýlishúsi og Elsa virðist allt vera mjög venjulegt en í gegnum bókina fáum við innsýn inn í flókna fortíð þeirra og dýpstu leyndarmál.

Amma biður að heilsa er bók sem fær lesendur til að hágráta og pissa í sig úr hlátri. Hún er ævintýri og þroskasaga á sama tíma. Þessi bók fær þig til að hugsa lífið upp á nýtt og velta vöngum yfir hlutum sem áður virtust svo einfaldir. Ég mæli eindregið með þessari bók fyrir þroskuð börn jafnt sem fullorðna. Þrátt fyrir að aðalsögupersóna bókarinnar sé sjö ára hentar bókin ekki svo ungum börnum því þau gætu farið á mis við boðskapinn sem þau munu skilja betur í framtíðinni. Það er alveg öruggt að þessi bók á eftir að breyta sýn þinni á heiminn.

Eyrún

bottom of page